Nýbúakennsla

Nýbúakennsla

Nemendum af erlendu þjóðerni hefur fjölgað töluvert í skólanum á síðustu árum. Þessir nemendur eru mjög misjafnlega á vegi staddir hvað varðar íslenskukunnáttu og þá um leið hæfni til þess að fylgja jafnöldrum sínum samkvæmt námskrá. Deildarstjóri sérkennslu skipuleggur kennslu þeirra í samráði kennara og foreldra. Mikil áhersla er lögð á að taka vel á móti nemendunum og aðstoða þá við að aðlagast íslensku samfélagi. Því yngri sem börnin eru, þegar þau hefja sína íslensku skólagöngu, þeim mun meira geta þau tekið þátt í námi bekkjarins og þurfa þá aðeins sérstaka kennslu í íslensku. Nemendur á unglingastigi, sem kunna enga íslensku, eiga erfiðara með að taka þátt í bóklegu námi bekkjarins. Hjá þeim er lögð áhersla á íslensku, stærðfræði og ensku. Unglingarnir taka þátt í öllu list- og verkgreinanámi með bekkjarfélögum sínum.

Íslenska sem annað mál er yfirleitt kennd í litlum hópum í sérkennslustofu. Samhliða framförum í námi er reynt að efla félagstengsl barnanna og auka þátttöku þeirra í íþróttum og félagslífi. Stefnt er að því að nemendur af erlendu þjóðerni fái kennslu í sínu móðurmáli ef þess er nokkur kostur. Sérstaklega ef nokkur börn eru af sama þjóðerni. Hins vegar er mjög erfitt að bjóða upp á móðurmálskennslu fyrir aðeins einn nemanda. Nemendur með pólsku eða tælensku sem móðurmál fá móðurmálskennslu í skólanum.. Pólskur kennari kennir pólsku og tælenskur kennari tælensku.

Skólinn sækir þjónustu í Alþjóðahús þegar þurfa þykir. Í skólanum eru haldnir gagnkvæmir upplýsingafundir fyrir nemendur af erlendu bergi og fjölskyldur þeirra. Á slíkum fundum er viðstaddur túlkur af sama þjóðerni.