Samstarf grunn- og leikskóla

Grunnskóli - leikskóli

Stefnt er að því að börn í elsta árgangi Leikskólans Heklukots mæti mánaðarlega í Grunnskólann á Hellu frá nóvember og fram í maí. Einnig er leitast við að hafa samstarf við þær fjölskyldur innan skólahverfisins, sem ekki eru með börn sín í leikskólanum. Markmiðið með samstarfinu er að koma í veg fyrir kvíða og óöryggi hjá þeim nemendum sem hefja nám í 1. bekk ár hvert. 

Börnin koma að skoða skólann, í söngstundir, frímínútur, hátíðarmat fyrir jólin, í myndlistar- útivistar- og íþróttatíma með eða án nemenda 1. bekkjar. Í maí koma þau í vorskóla tvo dagparta í beina skólaaðlögun. Þar teikna þau m.a. sjálfsmynd sem hengd er fyrir ofan snagann þeirra áður en þau mæta að hausti í 1.bekk.

 Þegar mögulegt er sér verðandi umsjónarkennari 1. bekkjar um vorskólann því þá hafa börnin náð að kynnast kennaranum sínum aðeins áður en grunnskólagangan hefst fyrir alvöru. Fyrsta skóladaginn að hausti kemur hvert og eitt barn í einstaklingsviðtal til umsjónarkennarans ásamt foreldrum. Þar kannar kennarinn m.a. bók- og tölustafaþekkingu barnanna og kennari og foreldrar skiptast á upplýsingum sem skipta máli varðandi skólagöngu barnanna.

Fyrir hönd skólans er samstarfi leik- og grunnskóla stýrt af deildarstjóra og umsjónarkennara 1. bekkjar ár hvert.

Mikilvægt er að verðandi nemendur Grunnskólans Hellu finni að þeir séu velkomnir í skólann.