Stoðþjónusta

Sérfræðiþjónusta

Grunnskólinn Hellu sækir ráðgjöf og greiningar til skólaþjónustu Rangarvalla- og Vestur- Skaftafellssýslu sem staðsett er að Austurvegi 4 á Hvolsvelli. Sjá nánar á www.felagsogskolamal.is Netfangið er skolamal@skolamal.is

Verksvið skólaþjónustunnar er í samræmi við lög um grunn- og leikskóla og reglugerð um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla auk samþykkta Byggðasamlags um félags- og skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu.

Sérfræðingar skólaþjónustunnar sinna greiningum á börnum í leik- og grunnskólum, m.a. almennu þroskamati, mati á hegðun og líðan, málþroskamati og námslegum greiningum s.s. lestrar- og stærðfræðigreiningum. Þeir veita ráðgjöf til foreldra, kennara og annars starfsfólks skóla, m.a. almenna kennsluráðgjöf, ráðgjöf vegna skipulags náms og kennslu einstakra nemenda og uppeldisráðgjöf. Þeir sinna auk þess eftirfylgd með nemendum í kjölfar greininga og sitja í teymum um börn með fatlanir,  námserfiðleika og aðrar sérþarfir. Talmeinafræðingur sér, auk greininga og ráðgjafar, einnig um tal- og málþjálfun barna með málþroskafrávik. Að auki er veitt ráðgjöf til sveitarstjórna og fræðslunefnda um ýmislegt sem lýtur að skólamálum. Sérfræðiþjónustan kemur að endurmenntun og fræðslu fyrir starfsfólk skólanna, bæði í formi styttri fræðslufunda og einnig umfangsmeiri námskeiða.

Málum er vísað til skólaþjónustu á  til þess gerðum tilvísanaeyðublöðum sem hægt er að sækja á heimasíðunni www.felagsogskolamal.is undir skólamál – tilvísunareyðublöð. Til að skólar geti vísað málum einstakra barna til sérfræðinga skólaþjónustu þarf skriflegt samþykki foreldra/forráðamanna þeirra að liggja fyrir. Foreldrar geta einnig snúið sér beint til skólaþjónustunnar án milligöngu skóla.