Sérkennsla

Sérkennsla

Sérkennsla í Grunnskólanum á Hellu mótast fyrst og fremst af grunnskólalögum, aðalnámskrá grunnskóla og þeirri stefnu sem til verður við samstarf sérkennara við sérfræðinga Skólaskrifstofu Suðurlands. Megin stefnan er sú að allir nemendur eigi rétt á kennslu og umönnun við hæfi, einnig þeir sem víkja frá eðlilegu þroskaferli. Sérkennsla er fyrst og fremst stuðningur við þá nemendur sem þarfnast tímabundinnar aðstoðar eða samfelds stuðnings um lengri tíma, jafnvel alla skólagönguna.Í skólanum er starfrækt sérkennsluver undir stjórn sérkennara.Aðrir kennarar koma einnig að sérkennslunni undir leiðsögn hans.

Leiðir

Í sérkennslunni er reynt að starfa fyrirbyggjandi til að koma í veg fyrir vandamál síðar. Það er m.a. gert með því að reyna að finna snemma á skólagöngunni þá nemendur sem aðstoðar þurfa með og veita þeim þann stuðning sem hægt er. Öll sérkennsluúrræði eru unnin í nánu samstarfi og með fullu samþykki foreldra. Algengast er að óskir um sérkennslu komi frá umsjónarkennurum, sem leggja fram rökstudda beiðni þar að lútandi. Einnig berast skólanum ábendingar eða óskir frá foreldrum um að börn þeirra þurfi á sérkennslu að halda, eða að þau verði athuguð sérstaklega, með bættan námsárangur í huga. Til greiningar á námsörðugleikum nemenda, styðjast kennarar skólans við ýmis greiningarverkefni sem lögð eru fyrir nemendur. Einnig koma að slíkri vinnu sérfræðingar Skólaskrifstofu Suðurlands s.s. talkennari, kennsluráðgjafi og sálfræðingur. Í framhaldi af fengnum niðurstöðum, eru gerðar kennsluáætlanir, þar sem námsefni, aðferðir og vinnubrögð eru tilgreind. Stefnt er að því að sem flestir nemendur geti fylgt námsefni samhliða árgangi sínum. Megin áherslan er lögð á lestrarkennsluna, enda er lesturinn undirstaða fyrir aðrar námsgreinar. Einnig er lögð mikil áhersla á stærðfræði, auk þess sem reynt er að efla sjálfstraust nemenda og bæta líðan þeirra í skólanum. Sérkennslan getur farið fram með einstaklingskennslu eða hópkennslu jafnt innan bekkjar sem utan. Algengast er að kenna í litlum hópum í sérkennslustofum eða að sérkennari fari inn í bekkina og aðstoði einstaka nemendur þar.

Námsgögn

Í sérkennslunni eru notuð flest þau sérkennslugögn sem völ er á svo sem spil, leikir, tölvuforrit, hljóðbækur og ýmis önnur hjálpargögn.