Haustferð unglingastigs 2025

Nemendur á unglingastigi Grunnskólans Hellu, ásamt Mögdu, Auði Erlu og Eydísi umsjónarkennurum, fóru í haustferð 4. - 5. september í Landmannahelli og Landmannalaugar. 
Hópurinn lagði af stað frá Hellu klukkan 8:30 í stórri fjallarútu.  Allir voru vel útbúnir í góðum skóm og með regnföt enda hellirigndi á Hellu þennan morgun. Fljótlega eftir að við lögðum af stað stytti upp öllum til mikillar ánægju og við tókum gott nestisstopp við Valahnjúka.
 
Þegar við komum í Landmannalaugar var mjög gott gönguveður og allir gengu Laugahringinn sem er 4,9 km að lengd. Fallegur hringur í fjölbreyttu umhverfi sem reyndi vel  á göngugarpana.
 
Eftir göngu var nestistími og síðan gátu þeir sem vildu farið í heita lækinn áður en farið var í Landmannahelli. Þar gistum við um nóttina og hver bekkur fékk einn skála til umráða. Eftir grillveislu komu Steini Darri og Kristinn í heimsókn með gítara og söngbækur og við sungum fram eftir kvöldi og hlustuðum á sögur af sönnum dularfullum atburðum. 
Mikið fjör og sumir sváfu lítið um nóttina. Sumir söknuðu þess að hafa ekki nettengingu en það er bæði hollt og gott að hvíla sig stundum á símanum.
 
Hér má sjá myndir frá ferðinni