Jólapokar

Grunnskólinn á Hellu og Hótel Rangá hafa verið í samstarfi í meira en áratug. Samstarfið gengur út á að nemendur grunnskólans framleiði jólapoka fyrir hótelið. Jólapokana hengja hótelstarfsmenn á herbergi gesta sinna og gefa þeim "í skóinn". Þetta hefur vakið mikla kátínu hjá gestum hótelsins og taka flestir fallegu jólapokana með sér heim.

Þetta skólaárið bauðst nemendum miðstigs að velja jólapokasaum sem valgrein. Valið var vinsælt og komu því fjölmargir nemendur að jólapokunum þetta árið. Valið verður áfram í boði út skólaárið og eru við því nú þegar byrjuð að framleiða jólapoka fyrir næstu jól. 

Síðastliðinn mánudag komu þær Eyrún og Sólrún, starfsmenn hótelsins, og tóku við jólapokunum. Að launum fékk skólinn fullt af spilum og tauliti sem munu nýtast vel í textílstofunni. Hjördís Pétursdóttir er umsjónarmaður verkefnisins, hún afhenti jólapokana og tók á móti gjöfunum ásamt krökkunum í valinu.

Undanfarin ár hefur skólinn eignast ýmislegt í tengslum við þetta samstarf, til dæmis allar saumavélar skólans, straujárn, straubretti og dót fyrir skóladagheimilið svo fátt eitt sé nefnt.

Meðfylgjandi mynd var tekin þegar þær Sólrún og Eyrún sóttu pokana og afhentu skólanum gjafirnar.