Höfuðlúsin var viðloðandi skólann okkar meirihluta síðasta skólaárs og er strax farin að láta á sér kræla þetta árið. Mikilvægt er að við skólasamfélagið tökum höndum saman og útrýmum þessum óvelkomna gesti.
Finnist lús í höfði barns er MJÖG MIKILVÆGT að láta vita í skóla/leikskóla barnsins svo hægt sé að tilkynna foreldrum annarra barna um lúsina og hefta þannig frekari útbreiðslu hennar.
Finnist lús, jafnvel bara ein, er það merki um að viðkomandi sé með höfuðlús og þarf meðferð. Meðferðin getur falist í kembingu eingöngu (einu sinni á dag í 14 daga) eða meðferð með lúsadrepandi efnum og kembingu. Nit lítur í fljótu bragði út eins og flasa, en ólíkt flösu er hún föst við hárið og er helst að finna ofan við eyrun og við hárlínu aftan á hálsi. (lyfja.is).
Lúsin fer á milli einstaklinga ef bein snerting verður frá hári til hárs í nægilega langan tíma til að hún geti skriðið á milli en hún getur hvorki stokkið, flogið né synt. (heilsuvera.is, e.d.).
Efni til að drepa höfuðlús fást í lyfjaverslunum og eru af ýmsum gerðum. Mikilvægt er að fara eftir leiðbeiningum framleiðanda við notkun. Algengt er að meðferðin sé endurtekin eftir um það bil viku. (heilsuvera.is, e.d.).
Mikilvægt er að nota góðan lúsakamb. Bilið milli teinanna má ekki vera meira en 0–3 mm. Best er að nota kamba með stífum teinum. (lyfja.is)
Á einhverjum lúsadrepandi lyfjum stendur að þau drepi nitin en af fenginni reynslu undanfarið skólaár er ljóst að þær fullyrðingar virðast ekki réttar. Svo virðist sem eina leiðin til að koma í veg fyrir að nitin klekist út sé að kemba þau úr með góðum kambi með stífum teinum (0-3 mm bil milli teina). Stundum fylgja góðir lúskambar með lúsasjampói.
Frekari upplýsingar um höfuðlús, einkenni hennar, smitleiðir og meðferð má finna inni á heilsuvera.is
Með von um að allir taki höndum saman og kembi börnum sínum daglega í 14 daga.
Útskálum 6-8 Sími á skrifstofu: 4887020 Netfang: grhella@grhella.is |
Skrifstofa skólans er opin á skólatíma
|
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 488 7020 / grhella@grhella.is / mentor.is
Fyrir leyfi til lengri tíma þarf sérstakt leyfi frá skólastjórnendum: Umsóknareyðublað