Stjörnuskoðun á Hótel Rangá

Í ár fagnar Hótel Rangá 10 ára afmæli Stjörnuskoðunarhússins, en húsið hýsir bestu stjörnusjónauka landsins. Afmælisárið var sett þann 13. febrúar með því að bjóða nemendum 5. bekkjar úr Grunnskólanum Hellu og Hvolsskóla í stjörnuskoðun og kakó á hótelinu.

Sævar Helgi Bragason, betur þekktur sem Stjörnu-Sævar, og Gísli Már Árnason tóku á móti krökkunum en þeir starfa sem stjörnufræðingar hótelsins. Á heiðskírum kvöldum er gestum boðið upp á leiðsögn um stjörnuhimininn í stjörnuskoðunarhúsinu.

Krakkarnir og foreldrar þeirra fengu að kíkja á Júpíter og tunglið í gegnum sjónaukana og sammæltust um að tunglið væri mun áhugaverðari staður. Þeim voru sagðar sögurnar á bakvið hin fornu merki dýrahringsins og myndun fjarlægra stjarna, stjörnuþoka og pláneta.

Afmælishátíðin með krökkunum var aðeins fyrsta skrefið að fagna afmæli stjörnuskoðunarhússins. Það stendur mikið til en meðal annars mun hótelið í fyrsta skipti bjóða upp á sólarskoðun yfir sumarmánuðina á völdum dagsetningum, stjörnukokteil og eftirrétt.

Himininn var stjörnubjartur og síðar um kvöldið létu norðurljósin sjá sig hér má sjá nokkrar myndir frá kvöldinu.