Skólinn okkar

 grsk-hellu-forsidumynd

 

Frá og með 1. janúar 2016 annast Byggðasamlagið Oddi bs rekstur Grunnskólans á Hellu, en að byggðasamlaginu standa Rangárþing ytra og Ásahreppur.  Byggðasamlagið annast einnig rekstur Laugalandsskóla og leikskólanna á Hellu og Laugalandi.  Skólahverfi Grunnskólans á Hellu nær yfir svæðið frá mörkum sveitarfélagsins í austri að Ytri Rangá í vestri.  Auk þess teljast Þykkvibær og bæirnir í Bjóluhverfi og á Ægissíðu til skólahverfisins.Stjórnunarþáttur skólastarfsins er leystur í höndum skólastjórnenda, kennara, kennararáðs, skólaráðs, fræðslunefndar, hreppsnefndar o.fl. 

Skólastarfið mótast fyrst og fremst af gildandi lögum og reglugerðum og einnig af því umhverfi sem skólinn þjónar.  Leitast er við að tengja saman nám og kennslu við það umhverfi og þann bakgrunn sem nemendur koma frá.  Slíkri samtengingu fylgir einnig mikil umfjöllun og fræðsla um umhverfismál.  Nemendur fá að kynnast nokkrum þáttum umhverfisfræðslunnar með beinum hætti (þ.e. með beinni þátttöku).  Má í því sambandi nefna útiskóla, skógrækt, hreinsunarátak og vettvangsferðir um heimabyggð og afrétt.  

Grunnskólinn á Hellu fékk  Grænfánann endurnýjaðan á skólasetningu haustið  2018 í fimmta sinn frá fulltrúa Landverndar.

Í skólanum eru starfræktar alls 10 bekkjardeildir.  Hver bekkjardeild hefur sinn umsjónarkennara.  Auk kennslunnar taka umsjónarkennarar saman heildaryfirlit yfir frammistöðu nemenda og ástundun.  Þeir gegna einnig veigamiklu hlutverki í samskiptum heimilis og skóla.  Umsjónarkennarar færa helstu upplýsingar um nemendur inn í upplýsingakerfi í gegnum heimasíðu  MENTOR, en foreldrar geta nálgast aðgangsorð að þeirri síðu með því að hafa samband við skólann. Leitast er við að koma boðum og upplýsingum til foreldra í gegnum póstkerfi Mentors.    Hver bekkjardeild  hefur sína eigin heimastofu.   Nemendur í 5. - 10. bekk  sækja tíma í náttúrufræðigreinum í náttúrufræðistofu þar sem því verður við komið.  Nemendum dreifbýlisins er ekið daglega með skólabílum til og frá skóla.  Við skólann er starfrækt mötuneyti, sem staðsett er í íþróttahúsinu.  Öllum nemendum skólans gefst tækifæri til að snæða þar fimm daga vikunnar.  Mötuneytisþátttaka er hluti af skólastarfinu og er hádegishlé nemenda fellt inn í stundaskrá einstakra bekkja.   Sjá nánar í kaflanum um mötuneyti.

Daglegt eftirlit með nemendum í frítímum (frímínútum, mötuneyti o.fl.) er í höndum sérstakra starfsmanna þ.á.m. skólaliða, kennara og húsvarðar.  Auk þess koma skólastjórnendur að gæslunni með daglegri umgengni sinni um skólann. 

Í allri starfsemi skólans er leitast við að hafa jafnrétti kynjanna að leiðarljósi, hvort heldur sem nemendur eru í leik eða starfi.  Fræðsla um jafnréttismál er látin samtvinnast námsefni nemendanna með einum eða öðrum hætti.  Má í því sambandi nefna samfélagsfræði, félagsmálafræðslu, lífsleikni og líffræði svo að eitthvað sé nefnt.  Sjá einnig jafnfréttisáætlun skólans. 

Í öllu skólastarfinu er lögð áhersla á að nemendur beri virðingu hver fyrir öðrum og eigum hvers annars. Nemendur eru hvattir til prúðmannlegrar framkomu í garð hvers annars og við alla starfsmenn skólans. Auk þess er nemendum kennt að virða settar reglur jafnt innan skóla sem utan.

Á hverju skólaári má búast við ýmsum uppákomum, sem þróast hjá nemendum og kennurum á hverjum tíma.  Sem dæmi má nefna: Þemaviku/ Bæjarhellu, skólaútvarp, útgáfu skólablaðs, jólaskemmtun, vettvangsferðir, vorhátíð og sýningu á afrakstri vetrarins o.fl.  Allir foreldrar og forráðamenn nemenda, svo og aðrir aðstandendur skólans eru ávalt velkomnir til þess að kynna sér þá starfsemi og það starfsumhverfi sem skólinn býður upp á. 

Upplýsingum um skólastarfið verður reynt að koma á framfæri með heimasíðu skólans, en þar munu birtast fréttir og upplýsingar um verkefni, uppákomur, hátíðir o.fl.